Ég hef alltaf verið mikið fyrir gulrótakökur en finnst voðalega fínt að geta sleppt öllum þessum hvíta sykri. Ó trúið mér, ég er bara almennt mikið fyrir kökur og bakkelsi en það hefur þann leiða eiginleika að vera yfirleitt dísætt og það er bara ekkert gott fyrir neinn. Allt í lagi spari og allt það en ég er rosa hrifin af því að nota allskonar ávexti í staðinn. Ekki verra að fá smá næringu með!
Þessi er frekar matarmikil, gæti alveg verið fín sem morgunmatur, svo holl er hún 😉
Innihald:
2 stórar gulrætur rifnar
1 epli rifið
1 þroskaður banani
9 ferskar döðlur saxaðar
1 dl rúsínur
2 dl haframjöl
2 dl fínt spelt
1 msk lyftiduft
1 tsk kanill
1/2 tsk salt
2 egg
1/3 dl kókospálmasykur
2 tsk vanilludropar
1/2 dl jurtaolía eða bragðlaus kókosolía
Kremið:
6 ferskar döðlur
50gr mjög mjúkt smjör
4 msk rjómaostur
1 tsk vanilludropar
3 sprautur vanillu stevia frá Via health
2 msk sukrin
nokkrir dropar sítrónusafi
Byrjið á því að rífa gulræturnar og eplið og setjið til hliðar. Hitið svo ofninn í 175°C. Stappið bananann í stórri skál og bætið út í hana eggjunum, vanilludropum og olíu og pískið vel. Saxið döðlurnar vel og pískið þær út í eggjablönduna. Bætið því næst þurrefnum, gulrótunum, eplinu og rúsínunum út í og hrærið varlega í með sleif.
Setjið í smurt hringlaga form og bakið í ca 25mín, fer eftir ofnum.
Fyrir kremið þarf fyrst að steinhreinsa döðlurnar, setja þær í lítinn mixer ásamt smjöri og vanilludropum, bætið rjómaosti við, sukrin, stevíu og sítrónusafa og mixið áfram. Gott að skafa niður hliðarnar með sleikju á milli. Færið svo blönduna í skál og þeytið með handþeytara nokkuð vel. Þið getið svo smakkað kremið til, ef ykkur finnst það ekki nógu sætt er hægt að bæta aðeins sukrin eða stevíu við.