Úrbeinað lambalæri með osta & spínat kartöflugratíni og hvítvínsbættri skógarsveppasósu

Úrbeinuð lambalæri eru frábær valkostur á veisluborðið þegar við viljum ekki hafa of mikið fyrir eldamennskunni. Páskalærið frá Kjarnafæði er fyrir fram kryddað með ljúffengri kryddblöndu og tilbúið beint í ofninn eða á grillið. Ég bar það fram með algerlega stórkostlegu osta & spínat kartöflu gratíni og hvítvínsbættri skógarsveppasósu sem fór sérstaklega vel með meyru lambinu. Þá er gott að bera fram ferskt salat með en auðvitað er ekkert því til fyrirstöðu að reiða fram rauðkál og grænar baunir með ásamt ísköldu malti og appelsíni.

Innihald:

1 stk. Páskalamb – lærissteik frá Kjarnafæði, um 1.3kg

Sjávarsalt og nýmalaður svartur pipar

1 laukur

Ferskar rósmaríngreinar

Aðferð:

1. Takið lærið út með amk 1 klst fyrirvara.

2. Afhýðið laukinn og skerið í tvennt, skiljið rótina eftir og skerið í báta.

3. Hitið ofninn í 180°C, einnig er hægt að grilla lærið, þá er gott að hita grillið vel upp áður.

4. Setjið lambið í eldfast mót ef það á að fara í ofn. Saltið og piprið aðeins yfir og raðið lauknum í kring.

5. Stingið kjöthitamæli í þykkasta hlutann. Steikið eða grillið lærið þar til það nær 60°C í kjarna. Ef það er í ofninum, takið það þá út og kveikið á grillinu á hæsta hita. Setjið lambið aftur inn og steikið þar til puran verður stökk og kjöthitamælirinn sýnir 65°C.

6. Látið kjötið hvíla í 10-15 mín áður en það er borið fram.

Osta & spínat kartöflugratín

1 kg bökunarkartöflur eða 4 meðalstórar

1 msk. smjör

100g ferskt spínat

1 laukur

500ml rjómi

60g rjómaostur

200g bragðsterkur ostur, rifinn

1 tsk. hvítlauksduft

½ tsk. laukduft

Salt og pipar eftir smekk

Fersk steinselja

Aðferð:

1. Skolið kartöflurnar og þerrið. Skerið kartöflurnar í mjög þunnar sneiðar, gott er að nota mandólín ef þið eigið það til.

2. Skolið spínatið og látið vatnið renna af því. Skerið laukinn í tvennt og svo þunnar sneiðar.

3. Rífið ostinn á rifjárni og setjið til hliðar.

4. Setjið smjörið á pönnu og steikið laukinn þar til hann er farinn að mýkjast og brúnast örlítið. Setjið þá spínatið á pönnuna og saltið og piprið. Steikið þar til spínatið er orðið alveg mjúkt og vökvinn uppgufaður.

5. Setjið rjóma, rjómaost, hvítlauksduft, laukduft, salt og pipar í frekar stóran pott og hitið saman. Látið sósuna malla aðeins þar til hún fer að þykkna.

6. Setjið kartöflurnar saman við og veltið þeim vel upp úr sósunni, sjóðið í 5-10 mín í pottinum og veltið kartöflunum reglulega.

7. Smyrjið kringlótt djúpt eldfast mót eða steypujárnspönnu með smjöri og raðið helmingnum af kartöflunum á botninn.

8. Dreifið spínatinu og lauknum yfir kartöflurnar og stráið helmingnum af ostinum yfir.

9. Raðið restinni af kartöflunum yfir ostinn og stráið afgangnum af ostinum yfir.

10. Setjið álpappír lauslega yfir fatið eða pönnuna og látið malla í 40 mín við 200°C, takið þá álpappírinn af og bakið gratínið áfram í 30 mín.

Hvítvínsbætt skógarsveppasósa

Innihald:

1 dós þurrkaðir skógarsveppir, verkaðir samkvæmt leiðbeiningum á dósinni

4-5 meðalstórir flúðasveppir

1 msk. smjör

500ml vatn

200ml hvítvín (má sleppa og setja meira vatn)

1 lambateningur

1 sveppateningur

Salt og pipar

Sósujafnari og sósulitur

200ml rjómi

Aðferð:

1. Skolið og setjið skógarsveppina í bleyti samkvæmt leiðbeiningum á dósinni. Saxið þá síðan smátt.

2. Saxið flúðasveppina smátt.

3. Setjið smjör á pönnu og þegar það fer að brúnast setjið þá sveppina út á pönnuna, saltið aðeins og piprið. Steikið þar til þeir eru farnir að brúnast vel.

4. Takið þá meðalstóran pott og setjið sveppina út í pottinn. Hellið vatninu og hvítvíninu yfir og bætið teningum út í.

5. Látið soðið sjóða aðeins niður og smakkið til, bætið salti og pipar út í ef þarf.

6. Þykkið sósuna með sósujafnara og setjið örlítinn sósulit út í ef vill.

7. Setjið rjómann út í sósuna og látið hana malla á vægum hita þar til hún er borin fram.

Unnið í samstarfi við Kjarnafæði

Recommended Articles

Leave a Reply

Discover more from Valla Gröndal

Subscribe now to keep reading and get access to the full archive.

Continue reading