Vegan uppskrift
Það vita margir að það er leitun að góðum vegan osti og hvað þá einhverjum sem bráðnar vel. Vegan Applewood osturinn er svo brilliant og góður. Mjúkur með dálítið reyktu bragði og passar sérstaklega vel með mexíkóskum mat. Það er ótrúlega fljótlegt og einfalt að útbúa þetta taco en hér ristaði ég litlar tortillu kökur á pönnu og setti ostinn á heita kökuna. Síðan sneri ég henni aðeins við svo osturinn færi beint á brenn heita pönnuna og við það gerast einhverjir töfrar! Fyllt með fersku rauðkáli, gulrótastrimlum, fersku salati, tómötum og baunabuffi. Toppað með söxuðu fersku jalapeno og hvítlaukssósu. Algjörlega stórkostleg samsetning sem þið verðið að prófa!
Innihald:
2 msk. ólífuolía
8 litlar taco kökur
8 sneiðar Applewood vegan ostur
4 baunabuff að eigin vali
Ferskt rauðkál, smátt skorið
Gulrætur, fínt skornar
Jöklasalat, fínt skorið
Tómatar, saxaðir smátt
Ferskt jalapeno, smátt saxað
Salsa sósa
Jógúrtsósa
Tahini hvítlaukssósa
1 dós Oatly sýrður rjómi
1 msk. tahini, ég notaði frá Rapunzel
2 hvítlauksgeirar, kramdir
1 tsk. þurrkuð kóríanderlauf
1 tsk. hlynsíróp
1 tsk. límónusafi
Sjávarsalt eftir smekk
Hrærið öllu saman og kælið.
Aðferð:
- Útbúið sósuna og setjið í kæli á meðan taco-ið er gert.
- Skerið grænmetið og setjið til hliðar. Hitið eða steikið baunabuffin samkvæmt leiðbeiningum, skerið þau svo í litla bita.
- Setjið ólífuolíu á pönnu og steikið taco kökurnar, setjið það magn á pönnuna sem kemst fyrir. Snúið þeim við þegar þær eru farnar að brúnast og setjið eina sneið af osti á hverja köku. Þegar þær eru farnar að brúnast vel á hliðinni sem snýr nú niður snúið þá aftur við þannig að ostahliðin snýr beint niður á pönnuna. Steikið ostinn í nokkrar sekúndur og takið þá kökurnar af pönnunni og fyllið.
- Setjið fyrst salsasósu á kökuna, því næst grænmeti, baunabuff, toppið með hvítlaukssósunni og söxuðu jalapeno.




Ok, spennó!