Vanillubollakökur með jarðarberjafyllingu og regnbogakremi

24 stk.

Á hverju ári fögnum við ástinni og fjölbreytileikanum á Hinsegin dögum sem enda í allsherjar partýi og ást í Gleðigöngunni. Við fjölskyldan bjóðum í bröns fyrir gönguna og förum svo öll saman í bæinn þar sem við fögnum saman og sýnum barninu okkar, vinum og fjölskyldu ást okkar og samstöðu í þeirra mikilvægu baráttu. Það er mikil gleði og stemning í þessum litríku bollakökum og við berum þær fram í brönsinum ásamt fleira góðgæti enda mikilvægt að ganga inn í gleðina með nóg af orku fyrir daginn.

Gleðilega Hinsegin daga kæru vinir! Ástin sigrar allt!

Innihald:

½ bolli jurtaolía

60g mjúkt smjör

4 egg við stofuhita

2 tsk. vanilludropar

¾ tsk. ekta vanillukorn eða 2 tsk. vanillusykur

2 og ¾ bolli hveiti

2 tsk. lyftiduft

¾ tsk. matarsódi

½ tsk. fínt sjávarsalt

1 bolli súrmjólk

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 175°C blástur. Setjið muffinsform í þar til gerða muffins bakka.
  2. Setjið olíu, smjör og sykur í hrærivélaskál og þeytið – Skafið niður hliðarnar og þeytið í 5 mín þar til blandan verður ljós og loftmikil.
  3. Setjið eitt egg í einu saman við, látið vélina vinna í nokkrar sekúndur á milli.
  4. Blandið saman þurrefnum í skál og hrærið aðeins saman með gaffli eða písk.
  5. Setjið helminginn af þurrefnunum saman við og hrærið þar til deigið er rétt byrjað að koma saman. Setjið súrmjólkina og restina af hveitinu út í og hrærið ekki lengur en bara rétt þannig að deigið sé samfellt og kekkjalaust. Skafið hrærarann og hliðarnar á skálinni með sleikju og takið skálina úr hrærivélinni. Hrærið aðeins í deiginu með sleikjunni til þess að ganga úr skugga um að deigið sé allt komið saman.
  6. Fyllið formin að 3/4. Bakist í 20 mín. Fer eftir stærð formanna og ofnum. Fylgist bara vel með eftir 15 mín og ef tannstöngli sem stungið er í eina köku kemur hreinn upp eru þær tilbúnar.
  7. Kælið kökurnar alveg áður en þær eru fylltar með jarðarberjafyllingunni.

Jarðarberjafylling:

450g frosin jarðarber

130g sykur

1 tsk. sítrónusafi

Setjið allt saman í pott og hitið rólega upp. Þegar sykurinn er farinn að bráðna vel hækkið þá hitann og sjóðið saman í 30 mín. Merjið berin með kartöflustöppu eða gaffli. Þegar fyllingin er tilbúin, setjið hana þá í sigti og merjið berin í gegn og blandið öllu saman aftur. Látið kólna alveg áður en fyllingin er sett í kökuna.

Regnbogakrem og skraut:

350g mjúkt smjör

500g flórsykur

2-3 msk. rjómi við stofuhita

2 tsk. vanilludropar

Gel matarlitir – Fjólublár, blár, grænn, gulur, appelsínugulur og rauður

Pastelperlur frá Dr. Oetker til skrauts

Regnbogakökuskraut frá Dr. Oetker

Plastfilma

Sprautupoki með 2M stút

  1. Byrjið á því að setja smjörið í hrærivélina og festið þeytarann á. Þeytið smjörið eitt og sér í 5 mín eða þar til það er orðið nánast hvítt og mjög létt í sér.
  2. Sigtið flórsykurinn saman við og byrjið að hræra, bætið þá rjóma og vanilludropum saman við og þeytið á mesta hraða í 10 mín.
  3. Setjið 100g af kremi í litlar skálar og litið hverja skál með einum regnbogalit. Mér finnst gott að geyma aðeins af ólituðu kremi og hafa nokkrar ólitaðar.
  4. Takið ca. 50cm af plastfilmu og setjið eina rönd í einu af kremi á plastfilmuna. Ég byrja á fjólubláa, fer svo í bláa, þá græna, gula, appelsínugula og síðast rauða. Rúllið plastfilmunni upp svo að þykk „pylsa“ myndist og snúið upp á endana á plastfilmunni. Komið stútnum fyrir í sprautupokanum, klippið annan endann af og setjið krem „pylsuna“ inn í sprautupokann.

Samsetning:

  1. Takið kremstút (hægt að nota þann sem fer í sprautupokann, muna þá bara að gera þetta áður en sprautupokinn er settur saman). Leggið breiðari endann á stútnum á miðjuna á hverri bollaköku og þrýstið niður og snúið og takið upp þannig að hola myndist.
  2. Setjið jarðarberjafyllingu í hverja köku, ca. 1 tsk. er passlegt eða bara það sem er pláss fyrir.
  3. Sprautið kremi ofan á hverja köku og skreytið með Dr. Oetker pastel perlum og regnbogaskrauti.

Recommended Articles

Leave a Reply