Borið fram með hýðishrísgrjónum og mið-austurlenskri jógúrtsósu
Fyrir 4.
Íslenska lambakjötið er best og það þarf ekkert að rökræða það frekar. Það er hægt að leika sér með það og matreiða það á ótal vegu. Ég hef alltaf verið veik fyrir grilluðu lambakjöti en þá verður að grilla það snöggt á blússheitu grillinu svo það ofeldist ekki. Mig langaði í eitthvað aðeins öðruvísi en þetta venjulega og ákvað að henda í uppáhalds jógúrtsósuna mína og bera kjötið fram með henni ásamt grilluðum sætum kartöflum, rauðlauk og hýðishrísgrjónum. Rétti á borð við þennan er hægt að panta á einhverjum veitingastöðum en mér finnst alltaf best að útbúa þetta heima. Næst þegar þið ætlið að skella kótilettum á grillið mæli ég með því að þið prófið þessa útgáfu!
Innihald:
- 2 pakkningar af lambakótilettum í suðrænni marineringu frá Kjarnafæði
- 1 stór sæt kartafla eða 2 minni
- 2 stórir rauðlaukar eða 4 minni
- 3-4 msk. ólífuolía
- Soðin hýðishrísgrjón, uppskrift og aðferð fylgir
- Jógúrtsósa, uppskrift og aðferð fylgir
- Salt og pipar eftir smekk
Aðferð:
- Takið kjötið úr kælinum og færið á disk. Útbúið sósuna og setjið hrísgrjónin yfir.
- Flysjið sætu kartöflurnar og skerið þær í 1 cm breiðar sneiðar. Leggið á stóran disk, bleytið eldhúspappírbréf og vindið aðeins og leggið yfir sneiðarnar. Hitið í örbylgjuofni á hæsta styrk. Passið ykkur bara á því að taka diskinn úr örbylgjuofninum með ofnhönskum, hann verður mjög heitur! Með þessari aðferð tekur enga stund að grilla sætu kartöflurnar.
- Flysjið rauðlaukinn og skerið í báta en skiljið rótina eftir svo laukurinn detti ekki í sundur. Penslið laukinn og sætu kartöflurnar með ólífuolíu og saltið með sjávarsalti.
- Hitið grillið vel eða alveg upp í 250° – 300°C. Setjið sætu kartöflurnar og laukinn á grillið. Þegar grænmetið er tilbúið að á annarri hliðinni snúið þeim þá við og setjið kjötið á grillið. Aðeins 2-3 mín. á hvorri hlið nægir.
- Berið fram með hrísgrjónunum, sætum kartöflum, rauðlauknum og jógúrtsósunni.
Mið-austurlensk jógúrtsósa
- 1 lítil dós hrein jógúrt (170g)
- 2 msk. tahini
- ¼ tsk. salt
- ¼ tsk. svartur pipar
- 2 hvítlauksrif marin
- 1 msk. ferskt kóríander, saxað
- 1 msk. fersk steinselja, söxuð
- ½ tsk. þurrkað dill
Aðferð:
Setjið allt saman í skál og hrærið. Leyfið aðeins að taka sig í kæli áður en sósan er borin fram.
Soðin hýðishrísgrjón
- 1 bolli hýðishrísgrjón
- 2 og ¼ bolli vatn
- ½ tsk. salt
Aðferð:
- Skolið hrísgrjónin og setjið þau í pott með vatninu, setjið lok á pottinn.
- Látið suðuna koma upp, lækkið alveg niður í nánast lægsta hita (ég er með span, er með 4-5 af 14) hrærið aðeins í hrísgrjónunum og setjið lokið aftur á.
- Án þess að opna pottinn sjóðið grjónin í 40 mín og slökkvið þá undir pottinum og leyfið þeim að standa í 10 mín. Með þessari aðferð fáið þið fullkomin hrísgrjón sem eru ekki klesst og festast ekki í botninum á pottinum.




Unnið í samstarfi við Kjarnafæði Norðlenska.