Dutch baby“ pönnukökur eru taldar rekja uppruna sinn til Þýskalands þrátt fyrir að nafnið gefi annað til kynna. Þessar pönnukökur eru alveg sérlega einfaldar og innihaldsefnin eru fá en það er aðferðin við baksturinn sem gerir þær alveg sérstakar og bragðgóðar. Öllum innihaldsefnum er skellt í blandara, þar næst hellt í funheita steypujárnspönnu og beint inn í ofn í korter. Við það lyftist pönnukakan alveg ótrúlega en þegar hún er tekin út úr ofninum fellur hún aðeins saman og við það myndast pláss fyrir mismunandi fyllingar. Hér ber ég hana fram með heimagerðu lemon curd eða sítrónusmjöri eins og það kallast á íslensku. Ég toppa hana síðan með ferskum berjum og dusta smá flórsykri yfir. Sítrónusmjörið geri ég með smá fyrirvara en það þarf að kólna alveg og stífna áður en það er notað, ef ætlunin er að hafa pönnukökuna í bröns væri til dæmis snjallt að útbúa smjörið kvöldið áður.
Pönnukakan:
- 1 bolli hveiti
- 1 bolli nýmjólk
- 4 stór lífræn egg frá Nesbú
- ½ tsk. salt
- 60g brætt smjör
- Lemon curd, magn eftir smekk
- Bláber og jarðarber, magn eftir smekk
- Flórsykur til að dusta yfir, magn eftir smekk
Aðferð:
- Byrjið á því að hita ofninn í 230°C blástur.
- Setjið hveiti, nýmjólk, egg, salt og 2 msk af brædda smjörinu í blandara og vinnið vel saman í 30 sekúndur. Opnið blandarann og skafið aðeins niður með hliðum. Látið blandarann vinna í nokkrar sekúndur í viðbót.
- Hitið meðalstóra steypujárnspönnu sem er 25cm í þvermál og setjið afganginn af brædda smjörinu út á pönnuna. Þegar fer að rjúka úr smjörinu og pannan orðin mjög heit, hellið þið deiginu úr blandarakönnunni út á pönnuna og setjið hana beint inn í heitan ofninn. Bakið pönnukökuna í 15 mínútur.
- Pönnukakan blæs vel út en fellur aðeins saman þegar hún kemur úr ofninum. Látið mesta hitann rjúka úr pönnukökunni, smyrjið lemon curd í miðjuna, raðið berjunum á pönnukökuna og stráið flórsykri yfir. Skerið í sneiðar og berið strax fram.
Lemon Curd:
- 3 sítrónur – safi + raspaður börkur
- 1 og 1/2 bolli sykur
- 200g smjör
- 4 stór lífræn egg frá Nesbú
- 1/2 bolli sítrónusafi (af sítrónunum)
- 1/4 tsk. salt
- Skolið sítrónurnar vel og þerrið. Raspið af þeim börkinn en passið að raspa bara gula hlutann, alls ekki fara niður í þetta hvíta, það er beiskt og ekki gott að hafa með.
- Setjið sykurinn og börkinn í matvinnsluvél og blandið saman í smástund.
- Bætið út í matvinnsluvélina smjörinu, salti og sítrónusafanum og blandið.
- Bætið svo einu eggi úti í einu í blandarann.
- Setjið blönduna í stálskál eða pott og hrærið stöðugt í yfir vatnsbaði. Hrærið stöðugt í þangað til blandan fer að þykkna. Þetta tekur svona 15 mínútur á rólegum hita. Ekki freistast til þess að setja pottinn beint á helluna til þess að flýta fyrir, það er dæmt til þess að enda illa og þið endið með sítrónu ommilettu.
- Sítrónusmjörið er svo tilbúið þegar það festist á sleif. Setjið í hreina krukku og kælið. Smjörið þykknar og stífnar þegar það kólnar.





Unnið í samstarfi við Nesbú – lífræn egg – hægt er að nálgast þau í öllum helstu matvöruverslunum s.s Bónus, Krónunni og Nettó