Ég hef alltaf verið mikið fyrir matarmiklar samlokur og elska hreinlega að útbúa slíkar samlokur í nestistöskuna. Ég nota ýmist ciabattabrauð eða gott baguette og fylli þær með allskonar áleggi, grænmeti og dressingu og það fer bara eiginlega eftir því hvað er til og í hvaða skapi ég er hvað fer á milli. Að þessu sinni langaði mig í smá klúbbsamloku fílíng en ákvað að grilla grísakótiletturnar frá Kjarnafæði og skera í sneiðar. Það kemur alveg ótrúlega vel út en þær eru mjög safaríkar og kryddblandan passar mjög vel með. Ég setti einnig beikon, ferskt salat, tómata, rauðlauk, avocado og hvítlaukssósu – þetta er algjörlega ómótstæðileg samsetning á samlokur! Það er einnig hægt að nýta afganga frá grillinu daginn áður og búa þannig til eitthvað alveg nýtt og djúsí úr þeim.
Innihald:
- 4 ciabattabrauð eða 2 baguette brauð
- 3 grísakótilettur með suðrænni kryddblöndu frá Kjarnafæði
- 8-10 eldaðar beikonsneiðar
- Hvítlaukssósa (tegund skiptir ekki máli)
- Ferskt salat
- 4 tómatar
- 1 avocado, skorið í sneiðar
- Salt og pipar eftir smekk
Aðferð:
- Byrjið á því að elda beikonið og grilla grísakjötið.
- Skerið grænmetið og setjið til hliðar
- Skerið brauðin langsum og smyrjið ríflega með hvítlaukssósunni
- Raðið álegginu á samlokurnar, saltið og piprið yfir og lokið. Ef þið ætlið að taka samlokurnar með í nestistöskuna þá pakkið þeim þétt inn en annars berið strax fram.






Unnið í samstarfi við Kjarnafæði – Norðlenska