Það hefur nú áður komið fram hvað ég elska vöfflur mikið og skiptir þá engu máli hvort þær eru þessar hefðbundnu íslensku með sultu og rjóma eða belgískar í allra handa útgáfum.
Svo er ég agalega hrifin af brunch réttum hvers konar. Beikon, egg, pönnukökur, belgískar vöfflur, ávaxtasalat og allt hvað eina.
Á ég að segja ykkur leyndarmál?
Stundum hef ég brunch í kvöldmatinn. Það fer alveg eftir stuðinu hvað ég nenni að gera en yfirleitt er það að minnsta kosti gott brauð, egg, beikon og vöfflur eða pönnukökur. Ef ég er í spari skapinu hef ég fersk ber með, í deigið eins og í þessu tilfelli og einnig ofan á vöfflurnar.
Núna þessa dagana eru fersk ber oft á tilboði og um að gera að nýta sér það.
Mæli með því að þið prófið þessar um helgina!
Deigið:
1 og 3/4 bolli Kornax hveiti
1/4 bolli maizenamjöl eða kartöflumjöl, má sleppa og hafa 2 bolla af hveiti
2 msk sykur
1 msk lyftiduft
1/2 tsk matarsódi
1/4 tsk salt
2 stór egg
1/2 bolli olía
2 tsk vanilludropar
1 og 3/4 bolli mjólk
1 bolli fersk bláber, má vera meira
Aðferð:
Blandið þurrefnum saman og bætið svo eggjum, vanillu, olíu og mjólk saman við. Mæli með því ef þið nennið að hræra vökvann saman í mælikönnu áður og blanda smám saman við þurrefnin svo deigið verði ekki kekkjótt.
Að síðustu blandið berjunum varlega saman við með sleikju.
Setjið um það bil 1/4 bolla af deigi í hvort vöffluhólf ef þið eruð með svona ferkantað belgískt vöfflujárn og bakið þar til vöfflurnar eru orðnar gylltar.
Ég mæli með því að raða vöfflunum ekki strax á disk heldur kæla þær lítillega á bökunargrind áður svo þær verði ekki sveittar. Það er svo hægt að hita þær aðeins í brauðristinni eða í ofninum ef þið viljið bera þær volgar fram.
Ég mæli eindregið með að setja gyllt síróp eða hlynsíróp, rjóma og banana eða ber á þær, nú eða bara dusta smá flórsykur yfir.
Verði ykkur að góðu!