Þessar smákökur eru ekkert venjulegar smákökur. Þetta eru svona lúxusbitar sem hægt er að baka allt árið en auðvitað alveg tilvalið að skella í þær fyrir jólahátíðina. Ég fæ nánast í hnén þegar ég heyri orðið hnetusmjör og elska hvítt súkkulaði svo hvað ætti að klikka? Ég studdist við nokkrar uppskriftir við gerð þessarar og það er örugglega alveg frábært að skipta út valhnetunum fyrir salthnetur eða pekanhnetur.
Þær eru mjög einfaldar í vinnslu og ég get svo svarið það, frá því að ég byrjaði að setja hráefni í skál og þær komu rjúkandi úr ofninum, liðu kannski 25 mínútur. Það er vel af sér vikið!
Innihald:
1 og 1/4 b. hveiti
1 b. grófir hafrar (appelsínuguli Solgryn)
1/4 tsk salt
1/2 tsk matarsódi
115gr smjör
6 msk hnetusmjör (ekki lífrænt, frekar ES eða Peter Pan)
1 b. púðursykur
1/2 b. sykur
1 stórt egg + 1 eggjarauða við stofuhita
2 tsk vanilludropar
100gr grófsaxað hvítt súkkulaði eða dropar
90gr valhnetur gróflega saxaðar
Bakið í 10-12 mín. Betra að fylgjast með og hafa þær minna bakaðar en meira.
Úr uppskriftinni fékk ég 28 kökur eða rétt tæpar 2 plötur, það er að sjálfsögðu hægt að stækka þær og fá færri stórar kökur.