Með súkkulaðismjöri, hnetusmjöri, jarðarberjum og banana

Eftir góða grill máltíð í góðu veðri vantar okkur oft eitthvað smá sætt í lokin. Þarf ekki að vera stórt, flókið eða mikið en bara eitthvað smá djúsí. Þessar tortillur eru eitthvað annað góðar og ótrúlega einfaldar og fljótlegar. Þær eru einnig vegan og henta því flestum. Nokkur einföld hráefni þarf og svo bara beint á grillið. Það má bera þær fram einar og sér en þær eru einnig gómsætar með ferskum ávöxtum og ís.

Innihald:

6 lífrænar tortillur – 20cm

Bionella súkkulaðismjör frá rapunzel

Gróft hnetusmjör frá rapunzel

Fersk jarðarber í sneiðum

Banani í sneiðum

Vegan smjör

2 msk. Cristallino hrásykur

1/2 tsk. kanill

Aðferð:

Byrjið á því að hita grillið ef það er ekki heitt nú þegar. Skerið jarðarberin og bananana í sneiðar, smyrjið annan helminginn af tortillunni með súkkulaðismjörinu og hinn með hnetusmjörinu. Magnið af hvoru fer eftir smekk hvers og eins. Blandið hrásykri og kanil saman í lítilli skál. Raðið bönunum og jarðarberjum á annan helminginn og lokið tortillunni með því að leggja hana saman í miðjunni og þá verður þetta eins og hálfmáni. Bræðið vegan smjörið og penslið aðra hliðina með því og stráið kanilsykrinum yfir. Raðið tortillunum á fat og farið með tortillurnar að grillinu. Leggið þær með smjör hliðina niður á heitar grindurnar og penslið hliðina sem snýr upp með smjörinu og stráið kanilsykri yfir. Grillið þar til tortillurnar fara að taka á sig góðan lit og snúið þá við.

Mér finnst gott að skera þær í tvennt og raða þeim á fat. Berið fram með því sem ykkur finnst passa best en góður vegan vanilluís eða þeyttur Oatly Visp rjómi ásamt ferskum berjum er alveg framúrskarandi með.

//Unnið í samstarfi við Gerum daginn girnilegan

Recommended Articles

Leave a Reply