Grilluð nautasteik með stórkostlegu rósmarín kúrekasmjöri

Á ferðum mínum um Bandaríkin kynntist ég svokölluðu kúrekasmjöri eða „Cowboy butter“ upp á enskuna. Það er mjög einfalt að útbúa það og það passar, eins fáránlega og það kann að hljóma, ótrúlega vel með öllum grillmat. Aðal atriðið er íslenska smjörið sem það bandaríska gæti aldrei keppt við ásamt ríflegu magni af hvítlauk, dijon sinnepi, sítrónu og stórkostlegri blöndu krydda. Best þykir mér að bera það fram með hvers kyns nautasteik eins og ég geri hér en það er þó ekki síðra með lambi, kjúkling, sjávarréttum eða grænmeti. Stórkostlegt ofan á grillaðar kartöflur líka! Þið verðið bara að prófa þetta fyrir næsta grill og það besta er að það er hægt að stækka uppskriftina og eiga þetta til í kæli.

Innihald:

  • 200g íslenskt smjör frá MS
  • 2 msk. dijon sinnep
  • Safi og börkur af 1 sítrónu
  • 8 hvítlauksgeirar
  • 1 msk. saxað ferskt rósmarín
  • 2 tsk. þurrkað timían
  • 2 tsk. þurrkað kóríander
  • 1 msk. þurrkuð steinselja
  • 1 tsk. paprikuduft
  • ½ tsk. cayenne pipar
  • ½ tsk. chili flögur
  • ½ tsk. nýmalaður svartur pipar
  • Sjávarsalt eftir smekk

Aðferð:

  1. Bræðið smjörið við vægan hita og setjið í skál.
  2. Skolið sítrónuna og þerrið. Raspið börkinn af sítrónunni og kreistið safann, setjið út í smjörið ásamt dijon sinnepi.
  3. Pressið hvítlaukinn út í og hrærið saman.
  4. Bætið kryddinu saman við og saltið eftir smekk.
  5. Best er að leyfa smjörinu að storkna í 1 klst á borði áður en það er borið fram svo kryddin nái að taka sig.

Unnið í samstarfi við MS – Gott í matinn

Recommended Articles

Leave a Reply