Pistasíuhnútar með marsípani & möndlum

Þessir hnútar eru algjörlega dásamlegir, stökkir að utan, mjúkir að innan með pistasíukremi, marsípani og möndlum. Þeir minna í senn á sænskt bakkelsi og eitthvað stórkostlegt úr bakaríi. Þeir eru í raun og veru mjög einfaldir en það er aðeins hefunartíminn sem gerir það að verkum að það tekur smá stund að gera þá. Pistasíusmjörið fékk ég fyrir nokkru í Costco en það má setja hvað sem er á milli, súkkulaðismjör, eða smjör og kanilsykur, það má skipta út möndlunum fyrir aðra tegund af hnetum eða sleppa þeim jafnvel alveg. Þessi uppskrift er að mestu vegan en ef pistasíukreminu er skipt út fyrir vegan smyrju eru þeir 100% án dýraafurða.

Neðst í færslunni getið þið smellt á myndaband og séð hvernig ég gerði þá, mæli með því að kíkja!

Innihald:

  • 150g vegan smjör
  • 500ml. haframjólk
  • 20g þurrger
  • 90g sykur
  • 1 tsk malaðar kardimommur
  • ½ tsk sjávarsalt
  • 850g brauðhveiti

Fylling:

  • Pistasíukrem, magn eftir smekk (eða önnur sæt smyrja)
  • Rifið marsípan, magn eftir smekk
  • 50g saxaðar möndlur (skiljið smá eftir til þess að setja ofan á snúðana)
  • Sænskur perlusykur

Aðferð:

  1. Setjið smjörið í lítinn pott og bræðið.
  2. Þegar smjörið er að mestu bráðið, setjið þá mjólkina út í pottinn og hitið rólega.
  3. Kælið blönduna niður í 37°C og stráið gerinu yfir. Hellið í hrærivélaskál, með deigkróknum hrærið aðeins í gerinu og látið bíða í 5 mín.
  4. Blandið sykrinum, saltinu og kardimommunum saman í skál og hellið út í skálina ásamt rúmlega helming hveitisins. Látið vélina byrja að vinna deigið en á þessu stigi er það talsvert blautt. Skafið niður á milli og bætið helmingnum af hveitinu sem eftir er út í skálina, skiljið um það bil 1 dl eftir. Haldið áfram að hnoða deigið í vélinni í 5-7 mín eða þar til það er slétt og samfellt.
  5. Setjið deigið á hveitistráða borðplötu og mótið í kúlu. Spreyið hrærivélaskálina að innan með olíuspreyi, setjið deigið ofan í skálina og spreyið aðeins yfir deigið. Hyljið skálina með sturtuhettu eða plastfilmu. Látið hefast á borði í 45 mín.
  6. Saxið möndlunar og setjið til hliðar.
  7. Takið deigið úr skálinni og mótið ferhyrning sem er ca. 30x80cm. Smyrjið útflatt deigið með pistasíukreminu, raspið marsípan yfir og stráið möndlunum þar yfir.
  8. Brjótið efri helminginn langsum yfir þann neðri og skerið þvert á í ca. 2 cm breiðar lengjur.
  9. Setjið bökunarpappír á 2 bökunarplötur og mótið snúða með því að snúa upp á lengjurnar og gera hnúta. Aðferðin skiptir engu máli, bara að þetta verði sirka eins og hnútur.
  10. Smyrjið hnútana með haframjólk og stráið perslusykri og söxuðum möndlum yfir.
  11. Stillið ofninn á lægsta hita (minn ofn er frekar heitur og 30°C er alveg nóg) og setjið plöturnar inn í ofninn. Úðið hnútana og ofninn með vatni og látið hefast í ofninum í 30 mín.
  12. Takið plöturnar út og hitið ofninn upp í 250°C. Þegar ofninn er orðinn heitur, setjið þá plöturnar aftur inn í ofninn og bakið í 10 mín.
  13. Kælið á plötunum og njótið með góðum kaffibolla.

Recommended Articles

Leave a Reply