Heitt ítalskt kartöflusalat með sólþurrkuðum tómötum, chili pestó og parmesan

Kartöflur í öllum útgáfum eru góðar, þannig er það bara. Hvort sem þær eru soðnar, bakaðar, grillaðar, djúpsteiktar… skiptir engu en akkúrat hérna nota ég þær í algjörlega geggjað kartöflusalat sem er borið fram heitt. Ég forsýð kartöflurnar í vel söltu vatni en klára að baka þær í ofni með öðrum dásamlegum hráefnum sem saman mynda þetta dásamlega meðlæti. Ég borða þetta kartöflusalat eitt og sér með góðu brauði eða ber það fram sem meðlæti með grilluðum kjúkling til dæmis. Sólþurrkuðu tómatarnir frá Sacla ásamt chili pestóinu gefa kartöflunum alveg sérstaklega gott bragð og ólífurnar og parmesan osturinn setja punktinn yfir i-ið. Þetta verðið þið að prófa næst þegar þið grillið!

Innihald:

  • 700g nýjar kartöflur skornar í bita
  • 1 msk. ólífuolía
  • 4 msk. Chili pestó frá Sacla
  • 10 sneiðar sólþurrkaðir tómatar frá Sacla
  • 1 dl grænar ólífur skornar í sneiðar
  • ½ rauðlaukur skorinn í sneiðar
  • 3-4 msk. rifinn parmesan ostur
  • 2 msk. söxuð fersk steinselja
  • Sjávarsalt og nýmalaður svartur pipar eftir smekk

Aðferð:

  1. Skerið kartöflurnar í 4 bita eða 8 ef þær eru mjög stórar. Setjið þær í pott og látið kalt vatn renna í pottinn þar til það er komið aðeins yfir kartöflurnar.
  2. Saltið vatnið ríflega, setjið pottinn á hellu og leyfið suðunni að koma upp. Lækkið þá niður og sjóðið í 15 mín. Hitið ofninn í 200°C blástur.
  3. Hellið úr pottinum í sigti og veltið kartöflunum í sigtinu þar til yfirborðið á kartöflunum fer að ýfast aðeins.
  4. Setjið eldhúspappír á bretti og setjið kartöflurnar á það. Þerrið kartöflurnar og setjið í skál. Dreifið ólífuolíunni yfir ásamt tveimur matskeiðum af pestóinu. Veltið og setjið í eldfast mót. Setjið inn í ofn og bakið í 10 – 15 mín.
  5. Á meðan kartöflurnar eru í ofninum takið þá sólþurrkuðu tómatana úr krukkunni og þerrið með eldhúspappír, skerið í bita. Skerið laukinn og ólífurnar í sneiðar og saxið steinseljuna. Þegar tíminn er liðinn á kartöflunum takið þá formið út og dreifið lauknum, sólþurrkuðu tómötunum, ólífunum og fersku steinseljunni yfir kartöflurnar. Raspið vel af parmesan yfir og saltið og piprið. Blandið saman með stórri skeið og bakið áfram í ofninum í 5-10 mín.
  6. Berið fram með grilluðum kjúkling eða hverju því sem ykkur dettur í hug að passi með.

Unnið í samstarfi við Ísam

Recommended Articles

Leave a Reply