Um helgar er tilvalin að skella í smá bakstur til að njóta í rólegheitum með fjölskyldunni. Svo ég tali nú ekki um þegar veður hefur verið í verri kantinum og varla hundi út sigandi. Þessi horn eru algjörlega himnesk og henta alveg sérlega vel með góðum kaffibolla. Ég nota suðusúkkulaðið með karamellukurli og sjávarsalti frá Nóa í fyllinguna ásamt pistasíuhnetum og sú blanda er alveg einstök. Þessi horn er vel hægt að frysta og taka nokkur út í einu og hita upp. Ég sé líka alveg fyrir mér að þau væru vinsæl í barnaafmælin eða ferminguna.
Innihald:
600g hveiti + til að hnoða upp úr
3 tsk þurrger
1 tsk salt
50g sykur
300ml volgt vatn
70ml olía
1 egg
150g Síríus suðusúkkulaði með karamellukurli og sjávarsalti
80g pistasíur
1 egg til að pensla með
Saxað súkkulaði til að dreifa yfir hornin
Aðferð:
- Setjið þurrefnin saman í hrærivélaskál og velgið vatnið upp í 37°C.
- Setjið krókinn á hrærivélina og byrjið að hræra á lágum hraða. Setjið vatnið rólega saman við og setjið eggið og olíuna út í strax á eftir. Deigið er frekar blautt á þessu stigi en það er allt í góðu lagi. Látið hrærivélina hnoða deigið í 5-7 mín.
- Takið deigið úr skálinni og hnoðið því saman í kúlu, hérna er ágætt að bæta örlitlu af hveiti saman við. Spreyið olíuspreyi eða penslið smá olíu í skál og setjið deigið í skálina. Hyljið með plastfilmu og látið hefast í 40 mín. Saxið súkkulaðið og pistasíurnar gróft og setjið til hliðar.
- Takið þá deigið og skiptið í tvennt. Varist að hnoða það of mikið. Stráið smá hveiti á borðplötuna og fletjið deigið út í hring. Skerið hringinn í 8 hluta eins og pítsusneiðar. Setjið súkkulaði og hnetur á breiðasta hlutann og rúllið upp í horn frá breiðasta endanum. Skiljið smávegis eftir af hnetunum til þess að strá yfir hornin. Setjið hornin á bökunarplötu sem klædd hefur verið bökunarpappír.
- Hitið ofninn í 45°C og úðið að innan með vatni. Setjið plöturnar inn og hefið í ofninum í ca. 30 mín.
- Takið þá plöturnar útúr ofninum og hitið hann upp í 200°C blástur.
- Penslið hornin með egginu og stráið smátt söxuðum pistasíum yfir. Bakið í 10-15 mín, tíminn fer eftir ofnum, fylgist bara vel með, þau eru tilbúin þegar þau eru orðin fallega gyllt.
- Stráið söxuðu súkkulaði yfir bökuð hornin um leið og þau koma útúr ofninum.
Unnið í samstarfi við Nóa Síríus