Svona skálar eru mjög vinsælar á mínu heimili þar sem allir fjölskyldumeðlimir geta raðað í sína skál eftir eigin smekk. Ég set hýðishrísgrjón í botninn eða miðjuna og raða svo yfir þau stökkum kjúkling og því grænmeti sem mig langar í það skiptið. Ég steikti kjúklingabita upp úr raspi sem ég gerði úr Finn Crisp flögunum og ég verð að segja að það er algjör snilld og passaði ótrúlega vel með kjúklingnum. Ég hugsa að ég prófi jafnvel að setja raspið á fisk næst, það getur ekki klikkað!
Innihald:
2 kjúklingabringur
1 poki Finn Crisp flögur með Sour cream & Onion
1 stórt egg eða 2 minni
2 msk mjólk
1 dl hveiti
½ dl jurtaolía
Salt, svartur pipar og eitthvað gott kjúklingakrydd
Soðin hýðishrísgrjón
1 avocado
1 gulrót í strimlum
2 tómatar
Ferskt rauðkál í strimlum
Svartar ólífur
Dressing ef vill af eigin vali
Aðferð:
Byrjið á því að sjóða hrísgrjón og setjið til hliðar. Skerið grænmetið á meðan hrísgrjónin sjóða og raðið á fat.
Takið fram 3 djúpa diska. Setjið hveiti í einn og kryddið með salti, pipar og kjúklingakryddi. Setjið eggið og mjólk í annan og sláið saman með gaffli. Saltið örlítið og piprið. Setjið Finn Crisp flögurnar í matvinnsluvél og vinnið smátt. Einnig er hægt að setja þær í rennilásapoka og mylja með kökukefli. Setjið flöguraspið í þriðju skálina.
Skerið kjúklingabringurnar í bita þvert á bringurnar, veltið þeim fyrst upp úr hveitinu, því næst egginu og þar á eftir raspinu. Leggið á disk og endurtakið þar til allir bitarnir eru hjúpaðir.
Setjið olíu á pönnu og hitið vel en samt ekki svo hún fari að brenna, ef kjúklingabiti sem settur er á pönnuna fer strax að „bubbla“ er pannan klár. Steikið kjúklinginn við meðalhita, bætið við olíu ef þarf. Leggið kjúklingabita sem eru tilbúnir á eldhúspappír sem lagður hefur verið á disk.
Þegar kjúklingurinn er tilbúinn er hægt að raða í skál eða djúpan disk. Ég sker bitana í strimla eftir steikingu, set hrísgrjón fyrst í skálina en raða svo kjúkling og grænmeti í kring. Ég set oft einhverja dressingu yfir en það er hægt að leika sér með þann möguleika eða hreinlega sleppa henni.







