Íslenskt aðalbláberjalamb með rauðvíns bláberjasósu og fersku salati

Það er fátt íslenskara en lambakjöt og aðalbláber. Og hvað er eiginlega betra á köldum haustdegi en fullkomlega matreitt lambalæri í aðalbláberjamarineringu og smávegis rautt í glasi? Fátt ef þú spyrð mig. Rauðvíns-bláberjasósan er framúrskarandi með lambinu og ég hafði einungis einfalt ferskt salat með og rifinn parmesan ost með. Það er þó ekkert því til fyrirstöðu að bæta við meðlæti eftir smekk. Nýjar kartöflur og grænar baunir eru áreiðanlega ljómandi með líka. Lærið er hálfúrbeinað og nýtist því mjög vel, ég myndi á ætla að það myndi duga fyrir 5-6 vel svanga einstaklinga.

Innihald:

1 stk. Íslenskt aðalbláberjalamb, um 2kg.

Salt og pipar

Ferskt salat

Parmesanostur í bitum

Rauðvíns-bláberjasósa

400ml bragðmikið lambasoð

100ml rauðvín

140g frosin bláber

Lambakraftur eftir smekk

2 msk. bláberjasulta

1 msk. Worcestershire sósa

1 tsk. hunang

2 tsk. sojasósa

Salt og pipar eftir smekk

3 msk. brúnn sósujafnari

30g kalt smjör.

Aðferð:

  1. Setjið soð í pott og hitið að suðu. Ef þið eigið ekki soð er gott að nota vatn og lambakraft. Ég nota ca. 2 teninga á móti 400ml. en það er best að smakka soðið til, ef til vill gæti þurft meiri kraft.
  2. Bætið rauðvíni og bláberjum út í soðið og látið suðuna koma upp. Leyfið þessu að sjóða saman í 10 mínútur.
  3. Takið töfrasprota og maukið berin vel í soðinu. Smakkið til og bætið lambakrafti við ef þarf.
  4. Setjið sultu, worcestershire sósu, hunang og sojasósu saman við og smakkið til með salti og pipar.
  5. Setjið sósujafnarann út í og leyfið að malla í svolitla stund áður en slökkt er undir sósunni og smjöri hrært saman við.

Aðferð:

  1. Takið lærið úr kæli með góðum fyrirvara.
  2. Hitið ofninn í 180°C með blæstri.
  3. Setjið lærið í ofnpott eða eldfast mót. Saltið og piprið.
  4. Steikið lærið í ofninum án þess að hylja það. Notið kjöthitamæli til þess að steikingin verði sem best. Mér finnst gott að taka lærið út þegar það nær 62°C í kjarnhita. Hitinn hækkar þegar það fær að hvíla en ég leyfi því að standa í 15-20 mínútur áður en ég ber það fram. Með þessari aðferð verður lærið stökkt að utan en lungamjúkt að innan.
  5. Útbúið sósuna þegar um það bil hálftími er eftir af eldunartíma lærisins.
  6. Ég bar lærið fram með fersku salati og sósunni en það er auðvitað margt meðlæti sem gæti passað vel við gómsætt lambalærið.

Recommended Articles

Leave a Reply