Núðlur með nautakjöti, brokkolíi og teriyaki ostrusósu

Það er svo einfalt og gott að gera heimagerða núðlurétti en því miður vill það oftast gleymast á mínu heimili. Rétturinn er alls ekki sterkur og hentar því sérstaklega vel fyrir alla fjölskylduna. Ég notaði nautgripaþynnurnar frá Kjarnafæði en það er alveg ótrúlega næs að eiga þær til í frysti og grípa í og nota í svona rétti. Kjötið er meyrt og gott og engin þörf á því að snyrta það eitthvað áður. Það er hægt að nota í raun hvaða grænmeti sem er, bæta við engifer eða chili fyrir sterkara bragð og leika sér með tegundir af núðlum og sósum.

 

Innihald:

1 pakkning Nautagripaþynnur frá Kjarnafæði (450-500g)

1 msk. olía

2 hvítlauksgeirar

Brokkolí eftir smekk, ég notaði ca. 1/3 af stórum haus

½ rauð paprika skorin í bita

2 vorlaukar fínt saxaðir

150ml teriyakisósa

4 msk. ostrusósa

1 msk.fiskisósa

1-2 msk. sojasósa

1 msk. hrísgrjónaedik

3 msk. vatn

Hálfur pakki hrísgrjónanúðlur

1 msk. ristuð sesamfræ

Aðferð:

  1. Saxið hvítlaukinn smátt, skerið brokkolíið, paprikuna og vorlaukinn og setjið til hliðar.
  2. Setjið vatn í meðalstóran pott og leyfið suðunni að koma upp.
  3. Hitið olíuna á pönnu og steikið nautakjötið á háum hita.
  4. Bætið grænmetinu út á og setjið teriyakisósu, ostrusósu, fiskisósu, sojasósu, hrísgrjónaedik og vatn út á. Látið malla í 5 mín.
  5. Setjið núðlurnar út í vatnið og látið sjóða í 3 mínútur.
  6. Hellið vatninu af núðlunum og setjið nautakjötið og grænmetið yfir ásamt sósunni.
  7. Berið strax fram.

Unnið í samstarfi við Kjarnafæði.

Recommended Articles

Leave a Reply