Heimabakaðar bollur slá
alltaf í gegn og það er hægt að gera óendanlega margar útgáfur af þeim. Þessi
uppskrift er ein af mínum uppáhalds. Þær eru alveg sérlega léttar í sér og
eiginlega mætti halda að þær kæmu úr bakaríi. Pestóið gerir þær extra mjúkar og
hefunaraðferðin hefur allt að segja. Þessar verðið þið að prófa!
Innihald:
700g brauðhveiti
350ml volgt vatn
3 tsk. þurrger
1 msk. sykur
2 tsk. hvítlauksduft
2 tsk. fínt mulið sjávarsalt
3 msk. kaldpressuð ólífuolía
4-5 msk. Sun dried tomato pesto frá Sacla (rautt pestó)
100g svartar ólífur, smátt saxaðar
1 egg + 2 msk. Sun dried tomato pesto frá Sacla
Rifinn ostur, magn eftir smekk
Aðferð:
Setjið þurrefni í hrærivélaskál og velgið vatnið. Setjið krókinn á og
hrærið aðeins upp í þurrefnunum. Setjið vatnið saman við ásamt ólífuolíunni og
pestóinu. Látið vélina hnoða deigið í að minnsta kosti 5 mínútur. Því lengur
sem það er hnoðað, því betra. Setjið saxaðar ólífur þá saman við og hnoðið
áfram í 2 mínútur. Takið þá deigið upp úr skálinni og mótið kúlu. Ég spreyja
smávegis af olíuspreyi í skálina, set deigið ofan í og spreyja smá yfir það svo
það klessist ekki við plastfilmuna sem ég legg svo yfir skálina. Látið hefast á
hlýjum stað í 40 mín.
Takið þá deigið úr skálinni og klæðið 2 bökunarplötur með bökunarpappír.
Mótið kúlur úr deiginu. Til þess að hafa bollurnar jafnar vigta ég hverja og
eina en það er í raun óþarfi ef þið nennið því alls ekki. Hver bolla hjá mér
var um 60g. Raðið bollunum á bökunarplöturnar.
Hitið ofninn á undir og yfirhita í 45°C. Úðið ofninn að innan með vatni.
Setjið plöturnar inn og úðið létt yfir bollurnar með vatni. Hefið í ofninum
í 30 mín. Takið þá bollurnar út og hitið ofninn í 210°C.
Sláið eggi saman við pestó og penslið bollurnar, stráið rifnum osti yfir
þær. Bakið í 10-14 mín. Berið fram með pestói eða öðru góðu áleggi. Þær eru
framúrskarandi með góðri súpu.