Pestó pizza með avocado, klettasalati og bláberjum

Pizzur eru alltaf góðar, það er bara þannig en þær þurfa
ekki alltaf að vera sveittar með pepp og svepp þó það sé oft mjög gott. Það eru nefnilega engar reglur um hvað má setja á pizzur og það er hreinlega lang best að láta hugmyndaflugið ráða þegar velja skal álegg á þær. Hér ákvað ég að nota klassíska græna pestóið frá Sacla í stað pizzusósu og raðaði síðan öllum
uppáhalds hráefnunum mínum og úr varð algjörlega dásamleg bragðsprengja. Bláberin passa alveg sérstaklega vel með pestóinu og grænmetinu, þið hreinlega verðið að prófa þessa!

Innihald:

1 pizzabotn:

250g brauðhveiti

1 ½ tsk. þurrger

1 tsk. fínmalað sjávarsalt

1 tsk. sykur

220ml volgt vatn

3 msk. ólífuolía

Setjið þurrefnin í hrærivélaskál og hrærið aðeins í,
velgið vatnið og hellið saman við þurrefnin á meðan vélin vinnur rólega, bætið
ólífuolíunni við strax á eftir. Leyfið hrærivélinni að hnoða deigið í 5
mínútur. Takið deigið þá úr skálinni og mótið kúlu. Penslið eða spreyið olíu í
skál og setjið deigið ofan í, hyljið með rökum klút eða plastfilmu og látið
hefast í 45 mín.

Ofan á pizzuna:

3-4 msk. classic basil pesto frá sacla

1-2 dl. rifinn ostur

½ fersk mozzarella kúla

rauðlaukur í sneiðum

10 svartar ólífur, skornar í sneiðar

½ avocado skorið í sneiðar

klettasalat

fersk bláber

 

Aðferð:

Á meðan deigið hefast er gott að gera áleggið tilbúið.
Skerið rauðlaukinn í tvennt og svo þunnar sneiðar. Skerið rest af grænmetinu og
setjið til hliðar.

Forhitið ofninn eins hátt og hann kemst, minn fer upp í
300°C en þessi er örugglega líka geggjuð í úti pizzaofnana.

Stráið smávegis af hveiti eða maísmjöli á borð og takið
deigið úr skálinni. Mótið pizzabotninn með höndunum en ég mæli síður með því að
nota kökukefli í verkið þar sem það skemmir fyrir lyftingunni á deiginu í
ofninum. Smyrjið pestóinu á botninn en skiljið smá kant eftir. Stráið rifnum
osti yfir pestóið og klípið bita af mozzarella kúlunni og raðið á botninn.
Raðið rauðlauknum og ólífunum á pizzuna og bakið þangað til þið teljið pizzuna
tilbúna, tíminn fer algerlega eftir ofnum og hitastigi.

Setjið pizzuna á bretti eða fat og raðið avocado á hana,
stráið því næst klettasalati og ferskum bláberjum yfir.

 

 

 

Recommended Articles

Leave a Reply